Í hádegishléinu í dag kom í skólann okkar maður sem stóð uppi á borði og ræddi um stríðið í Írak og fáránleika þess að Íslendingar styddu Bandaríkjamenn (eða réttara sagt Halldór og Davíð). Þessu var afskaplega mikill meirihluti Kvennskælinga sammála, sem endurspeglar viðhorf allrar þjóðarinnar, eins og kannanir hafa sýnt. Hann hvatti fólk til að fara og mótmæla með hvaða hætti sem er (samt að sjálfsögðu friðsamlegum hætti), en hann hefur í nokkurn tíma farið og staðið einn sins liðs fyrir framan Alþingi með spjöld og kerti, þingverðinum til mikils pirrings. Svo gaf hann Kvennaskólanum risastórt mótmælaspjald á kústskafti.
Svo heppilega vildi til að við bekkjarsysturnar og nokkrir fleiri vorum í gati í næsta tíma svo við tókum manninn á orðinu og skunduðum niður að Alþingishúsinu. Ég hélt á mótmælaspjaldinu sem var svolítið þungt. Slóst maður þessi í för með okkur (ég man ekki hvað hann heitir). Þegar við komum að Alþingihúsinu voru þar fyrir tveir menn með spjöld, einnig að mótmæla þáttöku okkar í stríði þessu. Þarna stóðum við svo öll saman og buðum hinum ýmsu þingmönnum og gangandi vegfarendum góðan daginn með bros á vör. Við fengum nokkuð góð viðbrögð frá allflestum þó margir hafi eflaust hugsað: ,,hvaða fávitar er þetta?". Svo spjölluðum við aðeins við Valgerði Sverrisdóttur og fleiri þingmenn og þetta hafði Valgerður um málið að segja:
,,En krakkar mínir, þið eruð að gleyma einu mikilvægu atriði. Við erum ekkert að taka þátt í stríðinu."
Við: ,,Nú? Hvað erum við þá að gera?"
Hún: ,,Við erum bara að styðja Bandaríkjamenn".
Jahá.......Þar höfum við það.
Svo var einhver sem hringdi á lögguna. Hún kom og sagði okkur að færa okkur hinum megin við götuna. Svo kom myndatökumaður frá rúv og ljósmyndari morgunblaðsins. Það er kannski gúrkutíð á Íslandi núna? En vonandi vekur þetta athygli á málstaðnum og fær fólk til að grípa til aðgerða.
Ég allavega hvet alla til að fara og mótmæla, það var mjög gaman. Og eins og þið sjáið, þá þarf ekki margar manneskjur til að vekja athygli og pirra þingmennina.