Bilað dót heima hjá mér
Alveg er ég viss um að mörg ykkar þykjast kannast við það hvimleiða vandamál að hlutir, þá sérstaklega hversdagslegir hlutir hins tæknivædda nútíma, eiga það til að bila. Því flóknari sem hlutur er, því auðveldara kemst hann úr jafnvægi og bilar. Ég get þó með nokkurri vissu staðhæft að ekkert ykkar hefur jafn mikla og víðtæka reynslu af biluðum hlutum og ég og fjölskylda mín. Ég er alls ekki að kvarta. Ég lít á þetta sem skemmtilegan lið í fjölskyldulífinu sem á það til að ýta undir sundrungu og almennan pirring innan fjölskyldunnar en stundum getur þetta hins vegar fært okkur nær hvert öðru.
Mig grunar að þetta magn bilaðra/skemmdra hluta á heimilinu stafi af skorti af virðingu meðal heimilisfólks fyrir veraldlegum hlutum. Ég ætla ekkert að fara í neinar grafgötur með það. Ég og systkinin mín erum mjög góð í að eyðileggja hluti, hvort sem það er viljandi eða ekki. Það er því meira svona til gamans, en ekki í einhverri biturð, sem ég hef ákveðið að mynda alla bilaða/skemmda hluti heimilisins og pósta hér á blogginu mínu ásamt smá útskýringu á ástandi viðkomandi hlutar (ef mér er kunnugt um hana). Þetta hefði þó líklega verið skemmtilegra þegar við bjuggum ennþá á Ásvallagötunni þar sem eyðileggingarmáttur okkar fékk að njóta sín í heil sjö ár. Það er samt alveg úr nógu að velja hér á Hagamelnum. Ég held jafnvel að ég geri þetta að vikulegum pistli. Hér koma fyrstu sjö myndirnar.

Hér er bílinn okkar. Þetta er reyndar örugglega van-bilaðasti bíllinn sem við höfum nokkurn tímann átt, jafnvel þó að miðstöðin hafi ekki virkað í honum í hálft ár og það heyrist mjög ótraustvekjandi hljóð þegar stigið er á bremsuna. En svo tókst pabba að bakka á grindverk svo núna skartar hann svona fínu teipi. Við höfðum allavega metnað til að hafa það í lit áþekkum bílnum sjálfum.
Þetta eru tölvuhátalarnir okkar. Þeir hafa fengið svipaða teipviðgerð og bílinn. Þetta eru afleiðingar óteljandi skipta sem greyin hafa skollið á gólfinu. Það heyrist samt alveg ennþá í þeim.
Þetta er hjólið hans pabba. Ég veit satt að segja ekki hvað gerðist, nákvæmlega.
Já, þetta er víst mér að kenna. Ég var að reyna að tjá reiði mína við unglingssystur mína í desíbelum. Ég skellti samt ekkert rosalega fast. Hurðir hafa löngum fengið að líða fyrir skapofsaköst fjölskyldumeðlima. Þess vegna var mamma fastakúnni í hurðadeild Húsasmiðjunnar fyrir nokkrum árum þar sem hægt var að fá útlitsgallaðar hurðir á mjög lágu verði.
Já, nú kemur kafli um klósettið hérna á Hagamelnum. Þetta er sumsé klósetthurðarhúnninn. Svo óheppilega vill til að svolítil kúnst er að læsa honum og ekki fyrir óreynda menn. Því kunna oft að skapast vandræðalegar aðstæður þegar gestir ætla að nota klósettið. Ef leiðinlegur gestur á í hlut skapast þarna prýðilegt tækifæri til að klekkja á honum og jafnvel losna við hann ef honum er mikið mál, því það vill jú enginn fara á klósettið án þess að læsa í annarra manna húsum. Við fáum reyndar ekki oft leiðinlega gesti svo yfirleitt eru þeim kennd handtökin, sem tekur ekki nema svona 15 sekúndur.

Þetta er sumsé klósettskálin okkar. Í henni er sírennsli, eins og sést, og því er alltaf afskaplega leiðigjarn hávaði inni á baði. Ástandið er þó mun betra en fyrir tveimur mánuðum. Þá var ekki hægt að sturta niður án þess að opna klósettkassann, skrúfa í sundur sturtarann og toga í stöng til að hleypa vatninu í skálina. Það var öllu erfiðara að kenna gestum þetta heldur en að læsa en þeir græddu þó að minnsta kosti haldgóða þekkingu á virkni klósettkassa sem alltaf er gott að hafa. Ég vakti t.d. mikla aðdáun þegar ég snaraði klósettkassanum í vinnunni minni í lag eftir hann fór að haga sér undarlega. Vandamálið var ekki jafn hvimleitt þar og hér, við enduðum á að þurfa að skipta um allt dæmið inni í klósettkassanum.

Jæja, 7. og síðasta myndin í pistli þessarar viku. More to come eftir viku til tvö ár. Hér gefur að líta fjarstýringu sem augljóslega gengur ekki heil til skógar. Ég fór að veita því athygli fyrir nokkru að það virtist vanta þó nokkuð marga takka í fleiri en eina fjarstýringu á heimilinu. Að eftirgrennslan lokinni komst ég að því að þarna var ekki um smitsjúkdóm að ræða heldur dægradvöl yngri bróður míns. Hann hefur víst rosalega gaman af að plokka takka úr fjarstýringum en leggur mikla áherslu á að hann fjarlægi bara þá takka sem eru ónauðsynlegir.