Nú þegar ég er komin heim og tala við vini mína og fjölskyldu á hverjum degi og segi þeim frá öllu sem er að gerast í mínu lífi virðist löngun mín og þörf fyrir að blogga vera lítil sem engin. Þetta er það eina sem ég hef að segja ykkur í dag:
-Ég og fjölskyldan mín eigum hund sem heitir Týri og er íslenskur fjárhundur. Nú eru íbúar hússins orðnir 12. Og hann pabbi sem er á móti allri gæludýraeign. Því hélt hann allavega fram alla mína barnæsku. Þó minnist ég þess glöggt að hafa í gegnum tíðina deilt híbýlum mínum með naggrís, salamöndrum, kanínum, hamstri, gullfiskum, 100 gúbbífiskum og ketti. Og nú fimm páfagaukum og hundi.
-Ég kom út í plús í skólabókakaupum mínum þetta árið.....Í PLÚS! Aldrei grunaði mig að slíkt gæti átt sér stað. Ég á reyndar eftir að kaupa penna og stílabækur og eftir það reikna ég með að koma út á sléttu...sem ég er nokkuð sátt við skal ég segja ykkur.
-Ég er að fara að byrja í nýjum skóla á morgun. Þetta mun vera í 8 skiptið sem ég geri slíkt, ef við teljum ekki leikskóla með....þannig að ég ætti að vera orðin sjóuð í þessu.