Svei mér þá, það stefnir bara allt í að ég og fjölskyldan mín þurfum ekkert að fara út úr húsi á aðfangadag nema til að keyra út jólagjafir, sem er náttúrulega bara stuð :)
Það mun vera persónulegt met.
Rétt í þessu vorum við (öll fjölskyldan) að koma úr frekar skondinni innkaupaferð þar sem af illri nauðsyn var komið við í Kringlunni. Þar ráfuðum við um í mannmergðinni og skiptumst á að týnast, en fundum að lokum til allrar hamingju hvort annað og meira að segja það sem við vorum að leita að (jakki handa Bjarka, ég fann hann, hohoho).
En ætli þetta verði ekki lokaorðin í bili, dálitlar annir fram undan, það á sko eftir að þrífa allt húsið. Ég segi bara:
GLEÐILEG JÓL :)
-til allra sem af ásetningi eða tilviljun ráfa inn á bloggið mitt, sérstaklega þeirra sem búast við jólakorti frá mér því að það er eiginlega ekki á leiðinni.