Vúppí. Þá erum við komin heim úr langferð mikilli. Á fimmtudag lá leið okkar norður í ættaóðalið Hríshól til að: a) fara í fermingarveislu, b) sýna ferskasta afkomandann. Allt gekk þetta vonum framar. Þorri er vel ásættanlegur í bíl, allavega mun skárri en ég var sem ungabarn er mér sagt. Svo ég kvarta ekki. Því miður fórum við fjölskyldurföðurslaus í þessa fyrstu langferð okkar þar sem hann þurfti að vera heima að vinna fyrir ýmsum nauðsynjum. Þannig að það vorum bara ég, Þorri, forstjórabíllinn, Egill og Gunnhildur. Það var náttúrulega bara best í heimi að komast í sveitina. Ferðum þangað hefur farið stöðugt fækkandi síðan á unglingsárunum...maður er svo skrambi upptekinn alltaf. Við hvað veit ég þó ekki.
Þorrinn vakti gríðarlega lukku meðal ættingja sinna og hann virtist ekki kippa sér mikið upp við þennan flaum af frændum og frænkum sem allt í einu var kynntur inn í líf hans. Enda er hann mikill "peoples person" og brosir blítt framan í alla sem sýna honum athygli. Hann fékk alvöru hláturskast í fyrsta skipti í sveitinni en honum fannst ein lítil (stór frá hans bæjardyrum séð) frænka sín svo ógurlega fyndin að hann gat ekki hætt að hlæja. Svo kíktum við náttúrulega á dýrin en hann tók þeim með miklu jafnaðargeði...hann mun eflaust sýna meiri viðbrögð þegar við förum aftur í sveitina seinna í sumar.
Svo ákvað forstjórabíllinn að vera með lítinn leikþátt og fór ekki í gang eitt kvöldið þegar ég ætlaði að ná í Gunnhildi í bæinn. Hann hefur líklega séð sér leik á borði verandi umkringdur sveitaköllum með bíladellu. Þeir spekúleruðu og ályktuðu og töluðu bílamál. Hitt og þetta var prófað, að lokum fékk hann smá bensínslettu (þó mælirinn sýndi alls ekki tóman tank) og þá ákvað hann að fara í gang og keyrði síðan með okkur alla leið heim án nokkurra vandkvæða. Þessi forstjórabíll!
Fermingarveislan var með eindæmum ljúffeng og gerði ég góða tilraun til að éta aftur á mig kílóin sem Þorri er búin að drekka frá mér. Veit ekki hvort það bar árangur...en ég mun halda því áfram í komandi útskriftarveislum.
Jæja, ég bið ykkur vel að lifa gott fólk, ég er farin að sofa. Hér er ein mynd, hún er tekin af Þorra rétt eftir að hann sá kind í fyrsta skipti: