Jæja...ég ætla að segja ykkur svolítið um mig sem þið vitið ekki!
Ég hef þrisvar sinnum um ævina heftað í puttann á mér. Fyrsta skiptið var þegar ég var fimm ára. Þá var um tilraunastarfsemi að ræða, mig langaði bara svo rosalega að vita hvað myndi gerast ef ég myndi hefta í puttann á mér. Það var frekar vont. Annað skiptað var þegar ég var svona tíu ára. Þá var ég eitthvað að vesenast með heftara og mundi eftir því þegar ég heftaði í puttann á mér þegar ég var þarna fimm ára lúði, hvaða fáviti var ég eiginlega? Svo var ég eitthvað að spá hvernig ég fór eiginlega að því og já.... Þriðja skiptið var svo í fyrradag, þá var ég átján ára. Ég hef það þó mér til málsbóta að í þetta skiptið var það alveg óvart. Eða ok, kannski er það ekkert skárra.
Ég hvet ykkur bara til að læra af mistökum mínum, þó að ég hafi kannski ekki gert það sjálf. Það er ekki gott að fá hefti í puttann.
Ps. Ég veit ekki hvort ég ætti að vera að opinbera lúðaskap minn eitthvað frekar en ég kyngdi líka óvart hefti í gær. Sem sagt: ég og heftarar eigum ekki samleið.
Ég svaf í hálfan sólarhring :D Mig dreymdi mjög mjög mikið af undarlegum, súrrealískum draumum....um að Kahlen í ANTM væri besta vinkona mín og svona. Og já, mig dreymdi líka að ég væri að verða rauðhærð.
En já, í gærkvöldi fór ég með hvutta í göngutúr. Við erum nefnilega með svona hi-tec hundaól í láni hjá Jóa. Og þetta var frekar langur gögnutúr, ég labbaði alveg heilan Neshring. Það var orðið svona frekar dimmt og þar sem það eru ekki neinir ljósastaurar úti í Gróttu þá var ég svona hálfpartinn að treysta á að hann Týri myndi nú bjarga mér frá skúrkum Seltjarnarnessins sem kynnu að leynast í myrkrinu (maður veit aldrei) því það er jú svona partur af staðalímynd minni af hundum að bjarga húsbændum sínum í neyð. En nei, kemur ekki bara í ljós að hann hvutti er skít myrkfælinn. Um leið og ljósastaurunum sleppti fór hann að reyna að snúa við og eitthvað og síðan ákvað hann að læðast bara á bak við mig. Svo vandist hann myrkrinu eftir smá tíma en ég er nú ekki að sjá hann fyrir mér drýgja einhverja hetjudáð ef til þess skyldi koma. Hann er reyndar bara hvolpur ennþá, hver veit hvað verður úr honum í fyllingu tímans.
Eitt enn...heyriði stúlkur, viljiði glugga í kommentakerfið fyrir neðan síðasta póst og skrifa hvernær þið eruð lausar svo við getum farið út að borða :D
Jesss! Bara eitt próf eftir...trallalallala! Hef reyndar viku til að læra ALLA bókmenntasögu 20. aldar, en vott ðe hekk...ég rúlla því upp með hjálp föður míns:D
Ég var í sálfræðiprófi áðan...og ég held ég hafi verið í einhverjum svefngalsa þegar ég fer að hugsa aðeins um svörin mín svona eftir á. Við áttum nefnilega að búa til allskonar dæmi þið vitið um virka skilyrðingu og viðbragðsskilyrðingu og svoleiðis. Ég held ég hafi eytt aðeins of miklum tíma í að ákveða hvað fólkið og kettirnir í dæmisögunum mínum ættu að heita af því að ég rétt náði að klára prófið. En það var stuð.
En hvernig gengur ykkur í prófunum, ja, og bara lífinu yfirleitt? Endilega tjáið ykkur hér í kommentakerfinu!
Ok...ég ætla rétt að vona að blogger verði ekki með einhvern skæting og leyfi mér að birta þessa litlu færslu hérna.
Maður veit að maður er of þreyttur til að vera að læra fyrir próf þegar maður dottar á tveggja línu fresti og námsefnið fer að fléttast inn í drauminn manns þannig að maður heldur að maður hafi lesið einhvern fróðleiksmola en fer síðan að athuga málið nánar vegna þess að hann er kannski ekki alveg í samræmi við námsgreinina sem maður er að læra undir og meikar kannski heldur ekkert mikið sens svona almennt séð. Við eftirgrennslan kemur svo í ljós að það stóð eitthvað allt, allt annað...Hafiði lent í þessu?
Ég held að ég sé svolítið eftir á í sambandi við jólin og allt það í ár...ég er varla byrjuð að leiða hug minn að þeim. Ég er það reyndar yfirleitt, það bregst ekki að ég kaupi meirihluta jólagjafanna á Þorláksmessu þegar klukkan er að nálgast ellefu. Það er líka mesta stemmningin.
Það er sko jólaFRÍIÐ sem á alla mína athygli sem stendur og skal engan undra, því þetta verður skemmtilegasta jólafrí allra tíma!
Ég var nú samt að fatta eitt...bráðum get ég farið að hlusta á skondnasta jólalag allra tíma; Mary's boy child :D Ég get ekki útskýrt hvað það er við þetta lag...þú skilur það kannski, Signý?
Ég ætla nú samt að spara það aðeins lengur...eina jólalagið sem ég er búin að hlusta á í fullri lengd í ár er aðventulag Baggalúts 2005. Það er mjög kómískt. Þið getið nálgast það á Baggalútssíðunni. Einhverra hluta vegna get ég ekki gert link í þessu opera forriti.
Annars bara, gangi ykkur vel að læra, vonandi betur en mér!