Af okkur er allt gott að frétta. Trítill er að detta í sjötta mánuðinn, fimm mánaða afmælið er á föstudaginn. Góður dagur, partýdagur. Og þá styttist jafnframt óðum í að fjölskyldurfaðirinn fari í sitt ó svo langþráða frí. Sumsé þeir tveir mánuðir sem eftir eru af feðraorlofinu. Þar sem við erum lífskúnstnerar miklir og metum frekar hvort annað og lífið heldur en veraldlegan auð (upp að vissu marki) ákváðum við að vera saman í fríi þessa síðustu tvo mánuði áður en ég fer í skóla í staðinn fyrir að vera praktísk og taka orlofin hvort í sínu lagi. Það er svo boríng. Stefnan verður tekin á Barðaströnd í júlí þar sem við munum liggja í sófa eða grasi (fer eftir veðri) og heitum potti í viku. Síðan ætlum við aftur norður í ættaróðalið því ég þarf að sanna fyrir fjölskyldunni þar að Þorri eigi raunverulegan föður.
Nú, þá eru það hreyfiþroska og vitsmunaþroska öppdeit. Í síðustu viku masteraði hann snúningstækni sína frá maga yfir á bak. Honum var hrósað á yfirdrifinn hátt í fyrstu skiptin sem það tókst svo hann myndi örugglega átta sig á að þetta væri æskilegt. Nú er hann alltaf sigri hrósandi sjálfur þegar hann snýr sér. Einnig er hann farinn að sitja alveg þokkalega sjálfur, þó er nú öruggast að hafa stuðning við bakið því ef hann verður of spenntur yfir einhverju kastar hann sér af krafti afturábak. Ef það er eitthvað spennandi fyrir framan hann á hann það líka til að missa efri búkinn í gólfið. Hann er reyndar búinn að vera svo duglegur í magaæfingunum að hann getur eiginlega reddað því sjálfur. Svo held ég að ég sé ekki búin að nefna ungbarnasundið en þar kann hann afskaplega vel við sig, kafar, ja, bara rétt eins og hann hafi búið í vatni fyrstu 9 mánuði lífs síns og er almennt töff. Það er ekki farið að votta fyrir mannfælutöktum í honum ennþá, mér skilst að það gerist um 6-7 mánaða aldurinn. Hann er reyndar ekki alveg jafn örlátur á brosin og hann var, hann er aðeins meira að velta nýjum andlitum fyrir sér og setur þá upp alvarlega stjórnmálamannssvipinn. Svo er hann mjög forvitinn gaur eins og sannaðist strax í fæðingu (var með andlitið upp, vildi ekki missa af þessum mikilvægasta atburði lífs síns). Horfir alltaf í allar áttir í göngutúrum eða í búðinni og unir sér ekki hvíldar nema hann sé til þess neyddur af móður sinni sem telur sig vita betur. Svo má hann ekki missa af neinu, hefur stundum ekki tíma til að næra sig því hann vill vera með í samræðunum. Einnig virðist hann hafa sérstakan áhuga á mat (semsagt alvörunni mat), horfir stíft og pælir mikið þegar verið er að borða í kringum hann. Enda prófar hann sjálfur við hvert tækifæri, stingur ennþá öllu upp í sig nema nú er það mun meðvitaðra. Hann var að spila á ukulele um daginn og ákvað svo greinilega að nú væri kominn tími til að fá sér bita, velti gripnum fyrir sér í smá stund eins og hann væri að ákveða hvaða hluti hans væri heppilegastur til inntöku og lét vaða. Á sunnudaginn fékk hann sér svo skeið af túnfisksalati í tilefni af afmæli ömmu sinnar. Hann ætlar að vera til í slaginn þegar þessi mamma hans ákveður loksins að gefa honum alvöru mat.
Trítillinn er síðan orðinn nokkuð góður í að sofna sjálfur í rúminu sínu á kvöldin. Ég kynnti mér helstu strauma og stefnur í svefnmenningu ungbarna og komst að því að best er að kenna þeim sem fyrst að sofna sjálfum til að eiga ekki á hættu að þurfa ennþá að taka klukkutíma frá á kvöldin til að svæfa þegar þau eru komin á grunnskólaaldur. Reyndar finnst mér svo afskaplega huggulegt að svæfa börn að ég hefði svosem ekkert á móti því (segi ég núna). En ég tek mér minn tíma í huggulegheit og fer síðan fram rétt áður en hann sofnar, svo í rauninni er hann að sofna sjálfur...
Svo er hann í stöðugum raddæfingum sem geta orðið mjög skondnar á köflum. Ég held að hann sé háværari en foreldrar hans til samans. Hann andar djúpt og gefur svo frá sér óskilgreindan sérhljóða þangað til loftið er búið. Ég þarf að fara að taka tímann á þessu hjá honum, þetta er alveg magnað. Svo þarf ég að finna út hvernig er hægt að nýta þennan hæfileika. Núverandi framtíðaráformin fyrir hann eru nefnilega að hann verði bólstrari vegna áhuga á mynstrum í efnum. Ég hef mínar efasemdir um það, mig grunar að sú merka starfsgrein sé á undanhaldi. Hann gæti náttúrulega orðið fatahönnuður, það er voða töff núna. En hver veit hvernig landið mun liggja í atvinnumálum eftir 20 og eitthvað ár?
Nú, þið viljið kannski fá einhverjar fréttir af MÉR? Ok. Ég er búin að gera það sem allir hræðast. Ég fór á mitt fyrsta djamm sem móðir. Og reyndar fleiri en fyrsta... Ég á svo marga góða að sem gera ekkert skemmtilegra en að passa barnið mitt. Og svo á það líka svo góðan pabba. Svo ég sá ekkert því til fyrirstöðu að fá smá nasasjón inn í mitt fyrra líferni. Og ég get sagt ykkur að ég held að á endanum muni það borga sig upp að hafa eignast barn. Ég er nefnilega núna svo ódýr í rekstri þegar kemur að neyslu áfengra drykkja. Ég hef hugsað mér að halda því þannig.
Jæja þetta er orðið langt, vonandi ekki leiðinlegt en ég mun þó ekki álasa þá sem ekki nenna að lesa þessar mæðraskrásetningar.
Bless í bili.
P.s. Hér er mynd af okkur mæðginum í morgunlúrnum, uppáhaldstíma dagsins!
Vúppí. Þá erum við komin heim úr langferð mikilli. Á fimmtudag lá leið okkar norður í ættaóðalið Hríshól til að: a) fara í fermingarveislu, b) sýna ferskasta afkomandann. Allt gekk þetta vonum framar. Þorri er vel ásættanlegur í bíl, allavega mun skárri en ég var sem ungabarn er mér sagt. Svo ég kvarta ekki. Því miður fórum við fjölskyldurföðurslaus í þessa fyrstu langferð okkar þar sem hann þurfti að vera heima að vinna fyrir ýmsum nauðsynjum. Þannig að það vorum bara ég, Þorri, forstjórabíllinn, Egill og Gunnhildur. Það var náttúrulega bara best í heimi að komast í sveitina. Ferðum þangað hefur farið stöðugt fækkandi síðan á unglingsárunum...maður er svo skrambi upptekinn alltaf. Við hvað veit ég þó ekki.
Þorrinn vakti gríðarlega lukku meðal ættingja sinna og hann virtist ekki kippa sér mikið upp við þennan flaum af frændum og frænkum sem allt í einu var kynntur inn í líf hans. Enda er hann mikill "peoples person" og brosir blítt framan í alla sem sýna honum athygli. Hann fékk alvöru hláturskast í fyrsta skipti í sveitinni en honum fannst ein lítil (stór frá hans bæjardyrum séð) frænka sín svo ógurlega fyndin að hann gat ekki hætt að hlæja. Svo kíktum við náttúrulega á dýrin en hann tók þeim með miklu jafnaðargeði...hann mun eflaust sýna meiri viðbrögð þegar við förum aftur í sveitina seinna í sumar.
Svo ákvað forstjórabíllinn að vera með lítinn leikþátt og fór ekki í gang eitt kvöldið þegar ég ætlaði að ná í Gunnhildi í bæinn. Hann hefur líklega séð sér leik á borði verandi umkringdur sveitaköllum með bíladellu. Þeir spekúleruðu og ályktuðu og töluðu bílamál. Hitt og þetta var prófað, að lokum fékk hann smá bensínslettu (þó mælirinn sýndi alls ekki tóman tank) og þá ákvað hann að fara í gang og keyrði síðan með okkur alla leið heim án nokkurra vandkvæða. Þessi forstjórabíll!
Fermingarveislan var með eindæmum ljúffeng og gerði ég góða tilraun til að éta aftur á mig kílóin sem Þorri er búin að drekka frá mér. Veit ekki hvort það bar árangur...en ég mun halda því áfram í komandi útskriftarveislum.
Jæja, ég bið ykkur vel að lifa gott fólk, ég er farin að sofa. Hér er ein mynd, hún er tekin af Þorra rétt eftir að hann sá kind í fyrsta skipti:
Je minn. Þessi endurkoma mín á bloggið varð ekki jafn glæst og ég var búin að sjá fyrir mér. En jæja...mátti reyna.
Margt vatn hefur runnið til sjávar, enda hefur ævi Þorra nær tvöfaldast síðan ég birti síðustu færslu. Hann er nú búinn að mastera tæknina að grípa í hlut með hendinni en fyrsti og eina áfangastaður alls sem hann nær taki á endar í munninnum. Allir vegir liggja upp í munn er hans mottó. Síðan er hann bara svona að æfa hitt og þetta sem nauðsynlegt er að kunna til að komast af í lífinu. T.d. liggja á maganum og reisa sig upp á hendurnar, skoða bækur, sitja og ýmislegt fleira. Hann er ekki farinn að sýna mikla tilburði til að velta sér ennþá en mig grunar að hann sé bara ekki nógu kringlóttur. Hann er svo grannur og spengilegur sko. Svo þjálfar hann röddina og lungun af krafti inn á milli. Síðustu daga hefur hann hins vegar skartað þessari fínu viskírödd en hálsbólga hefur herjað á heimilisfólkið. Það gerir grátinn hans svona tuttugufalt dramatískari en ella svo ekkert er til sparað í huggunaraðgerðum.
Jú, svo var þriggjamánaðaskoðun um daginn (reyndar var hann lööööngu orðinn þriggja mánaða, þessi seinkun skrifast að hluta til á gleymsku foreldra og að hluta til á veikindi hjúkkunnar). Hann er búinn að tvöfalda fæðingarþyngd sína. Geri aðrir betur. Svo fékk hann sprautu en ég held hann hafi ekki áttað sig á því einu sinni.
En svona í öðrum fréttum þá ákvað harði diskurinn á tölvunni minni að fara yfir móðuna miklu og tók stafrænt líf mitt síðustu þriggja ára með sér. Því ég var jú alltaf að hugsa um að ég ætti nú að fara að gera bakköpp en komst aldrei lengra en það. Sem betur fer hef ég ekki gert mikið af viti síðustu þrjú árin. Ég er samt mjög þakklát fyrir þetta blogg hérna sem er fínasta heimild um líf mitt síðustu sjö árin.
Það er margt fleira sem mig langar að tjá mig um núna, t.d. ofsakvíða minn fyrir yfirvofandi tannlæknaheimsókn þann 6. júní en ég er að hugsa um að fara að gera eitthvað annað núna.
Síðan fyrst ég sá þig hér, sólskin þarf ég minna. Gegnum lífið lýsir mér ljósið augna þinna.
Í gær varð litla ljósið mitt tveggja mánaða. Því leyfi ég mér smá væmni með þessari vísu eftir Káinn. Í tilefni af því röltum við fjölskyldan niður á höfn og 2/3 hennar fengu sér Sushi á meðan 1/3 hennar svaf í vagninum. (Reyndar fattaði ég ekki að hann ætti afmæli fyrr en að hátíðahöldunum loknum).
Á aðeins tveimur mánuðum hefur mér næstum því tekist að mastera þá list að vera í fæðingarorlofi. Það er líka auðveldara í svona veðurblíðu eins og hefur verið. Ég er daglegur gestur í miðbæinn þar sem ég hringsóla um með vagninn og kanna hvað er í boði (helst ókeypis) fyrir svona fólk eins og mig. Hér koma helstu niðurstöður, í punktaformi:
- Ég er búin að fara fjórum sinnum á bókasafnið. Ég fattaði að það er hægt að fá lánaða alls konar geisladiska og hef óspart nýtt mér það, ásamt því að lauma með sjálfshjálparbókum um barnauppeldi. Þær eru samt flestar frá 9. áratugnum og skarta oft myndum af fólki í krumpugöllum með svitabönd. Það rýrir því miður óhjákvæmilega sannleiksgildi textans, svo ég er ekki mikið að leggja mig fram um að fara eftir honum.
- Ég er að vinna í því að velja mér hvaða einbýlishús í gamla vesturbænum ég ætla að kaupa þegar ég eignast allar milljónirnar mínar. Þá labba ég mjög hægt um göturnar og ímynda mér að ég búi í hverju húsi.
- Kaffihúsahangs er prýðisdægradvöl en þá þarf það að henta vel fyrir vagnafólk. Í Kaffismiðjunni á Kárastíg eru stórir gluggar alveg hjá borðunum, engin umferð, svakagott kaffi og plötuspilari. Í ráðhúsinu er kaffihús með útsýni út á Tjörnina, ókeypis nettengingu og nóg pláss inni fyrir barnavagninn (þarf þó að passa að barnið stikni ekki úr hita ef það er vel klætt). Á eftir að tékka á fleirum.
- Að gluggaversla er auðvitað fullkomið fyrir þá sem ýta á undan sér barnavagni og fá lágmarksgreiðslur frá fæðingarorlofssjóði!
- Ef maður nennir ekki í miðbæinn er afskaplega huggulegt að ganga Ægisíðuna eða út í Gróttu að horfa á sjóinn og fjöllin og hlusta á fuglana.
Þetta er svona það helsta í bili, ég á eftir að kanna fleiri hluti, t.d. listasöfnin og svo mun sumarið auðvitað bjóða upp á ótalmargt fleira. Þá ætla ég í pikknikk í Grasagarðinum, fjölskyldu-og húsdýragarðinn, sund, dagsferðir út úr bænum ofl. ofl. Ég er afskaplega ánægð með að hafa eignast barn snemma á árinu, nýting fæðingarorlofsins gæti ekki verið betri!
Jæja, af Þorra er annars það að frétta að hann verður alltaf meira og meira kammó, brosir og hlær framan í alla og er samhliða því að vinna í að gera grátinn sinn skilvirkari. Hann hefur reyndar skartað mjög sannfærandi skeifu síðan hann fæddist eins og sést á mynd í færslu svolítið neðar. Hann teflir henni fram þegar hann er orðinn virkilega sár og þá þarf ég aldeilis að hugsa minn gang.
Svo er hann orðinn duglegri í armbeygjunum, verður ekki lengur fúll um leið og ég legg hann á magann heldur um það bil mínútu síðar.
Hér er ein mynd af snáða sem Gunnhildur frænka hans tók. Hann tekur sig bara vel út með gleraugu sem er gott. Það eru svona 50% líkur á því að hann muni þurfa á þeim að halda innan tíðar.
Í kvöld datt ég aðeins í það að lesa mér til um ungabörn og uppeldi á netinu (þegar ég var ólétt gerðist þetta líka, nema þá í sambandi við meðgöngu og fæðingu). Það getur verið varhugavert þar sem þar er þvílíkt offramboð af upplýsingum og stundum erfitt að fatta hvað er tómt kjaftæði og hvað ekki. En fyrir nýbakaða, unga móður er hægara sagt en gert að stoppa þegar víðlendur internetsins hafa náð taki. Og eftir svona upplýsingafyllerí er hætt við að heilinn ofhitni og allt í einu kemst hann að þeirri niðurstöðu að ég sé hræðileg móðir...af því ég hef ekki farið 100% eftir ÖLLUM ráðunum sem ég las á netinu. En þá þarf ég nú yfirleitt bara aðeins að kæla mig niður og þá man ég að það mikilvægasta af öllu er að fylgja eigin innsæi. Konur og menn ólu nefnilega upp börn löngu áður en öld hins yfirdrifna upplýsingaflæðis gekk í garð.
Ég hlakka samt til þegar Þorri fer að tala og getur bara sagt mér hvað er að og hætt í þessum endalausa "gettu hvað er að mér núna!" leik.
Ég á hins vegar örugglega á ákveðnum augnablikum í framtíðinni eftir að sakna þess tíma sem hann var rúmur hálfur meter að lengd og var ekki búinn að fatta að dótið sem var alltaf að sveiflast í kringum hann væru hans eigin hendur.
Það er svo fyndið þegar hann er að sveifla höndunum svona ómeðvitað í kringum sig, svo allt í einu hittir hann upp í sig, telur sig vera búinn að næla sér í geirvörtu og fer að totta, geðveikt sáttur við lífið. Gaman ef að svona hlutir myndu kæta mann jafn mikið á fullorðinsaldri. Og þó, þá væri líklega um einhvern misþroska að ræða.
Eitt af því sem ég las þarna í ölæðinu áðan var að ungabörn sjá fyrst bara í svart-hvítu (vissi það reyndar) en svo fara að bætast við litir, fyrst gulur. Það kemur heim og saman hér á bæ því fyrst var uppáhalds dótið hans svarthvíta pandan sem hann gat spjallað við mínútunum saman (sambærilegt við "klukkutímunum saman" hjá okkur fullorðnum). Núna er uppáhalds dótið hins vegar apahringla sem er einmitt gul, og sólin, sem er aldeilis gul, á hengislánni hans. Athyglisvert!
Hér koma tvær myndir, því það er skemmtilegra að lesa blogg sem eru með mynd. Þessi er af Þorra í léttu spjalli við fyrrnefnda pöndu:
Þessi er af Þorra að segja sjálfum sér geggjað fyndinn brandara í speglinum:
Jæja, pilturinn vex með ÓGNARhraða. Enda hef ég lagt mikinn metnað í hlutverk mitt sem mjólkurbú. Nú telst hann ekki lengur til nýfæddra barna heldur er hann óbreytt ungabarn. Smátt og smátt eru því skapgerðareinkenni og annað slíkt að að koma í ljós, þó svo að hann hafi raunar verið maður mikilla svipbrigða allt frá fæðingu. Þá helst í svefni, þekktastur var Zoolander svipurinn en ég held að öll þessi svipbrigði snáðans hafi verið mun tengdari meltingarstarfsemi hans en fólk var fúst til að viðurkenna. Nú eru hinsvegar að koma fram meðvitaðri svipbrigði, t.d. hið undurfagra bros hans sem hann útdeilir af miklu örlæti þegar hann er í stuði. Mjög auðvelt er að töfra fram eitt slíkt með því að blístra fyrir hann, það þykir honum stórkostlega skemmtilegt. Einnig er móðir hans (ég) ekki frá því að hann sé nú þegar búinn að fatta að prump sé fyndið því í dag hló hann tvisvar eftir að hafa bombað af krafti (merkilegt hvað svona lítill afturendi getur framkallað mikinn hávaða), en það gæti þó hafa verið tilviljun... Auk þess er næstum alltaf hægt að hugga hann ef hann er óhress með því að skella honum á skiptiborðið. Fyrir ofan það hanga nefnilega fötin hans og á veggnum er mynd sem ég málaði þegar ég var 10 ára sem virðist grípa augu hans (enda var ég stórkostlegur listamaður sem barn). Hann er mjög athugull og forvitinn, veitir öllu fólki mikla athylgi og fylgir því vel eftir með augunum. Stundum finnst mér eins og hann sjái meira en við hin þegar hann dettur í innilegt spjall við eitthvað sem virðist bara vera hvítur veggur. Jafnframt eru hljóðin sem hann gefur frá sér búin að þróast, hann er auðvitað farinn að hjala heilmikið og svo er orðið auðveldara að greina á milli óánægjuhljóðanna. Af og til kemur frá honum stutt og laggott hátíðnihljóð sem tjáir svo skýrt og greinilega þvílíka vanþóknun að hann gæti alveg eins verið að segja: "Hvað er að þér maður?!?"
Um daginn fór hann í rosalega fýlu út í móður sína sem er alltaf að reyna að æfa hann í að liggja á maganum en það þykir honum afskaplega leiðinlegt (oftast, nema þegar hann er í stuði). Hann grét bara og grét (ekki einu sinni skiptiborðið virkaði) og hætti ekki fyrr en pabbi hans kom heim úr búðinni og bjargaði honum. Svo varð hann fljótlega svangur og neyddist til að fyrirgefa mér. Múhahaha...
Nú er að hlýna og það þykir mér afskaplega gaman. Þá getur fæðingarorlofið mitt farið að eiga sér stað utan heimilisins og lít ég mjög hýru auga til sumarsins, það skal sko bæta upp fyrir gubb-sumarið mikla sem leið.
Best að ég hafi almennilega kynningu á nýja einstaklingnum í lífi mínu. Þessi litli kall hér fyrir ofan er Þorri Hrafnsson, frumburður foreldra sinna. Hann lagði af stað í heiminn seinnipart laugardagsins 23. janúar síðastliðins en þá var móðir hans (ég) búin að gera samning við hann um að ef Íslendingar ynnu Dani á EM í handbolta þennan dag myndi hann a.m.k. fara að hugsa sér til hreyfings. Enda var hann búinn að framlengja dvöl sína í mér um 9 daga miðað við læknavísindin, alveg að mér óspurðri. Ef ég hefði ekki verið eins spennt og óþolinmóð og ég var hefði mér verið alveg sama, þar sem ég var alls ekki að farast úr neinni óléttu. Ég hefði örugglega getað hlaupið 100 metra spretthlaup og náð ágætum tíma hefði ég kært mig um það. En eins og ég segi þá hélt hann loforðið og lagði af stað þegar hann gerði sér grein fyrir að Danir myndu ekki ná upp markaforskoti Íslendinga. Það var síðan ekki fyrr en akkúrat tveimur sólarhringum síðar að hann leit dagsins ljós í fyrsta sinn. Ég ætla ekkert að fara nánar út í þetta tveggja daga ferli sem fæðing hans var hér þar sem þetta er mjög opinber vettvangur. En honum var fyrirgefið allt, bæði seinkunin og þetta droll á leiðinni, þegar foreldrar hans sáu hversu fullkomið eintak hann var. Eins og pínulítill fuglsungi með forvitin augu sem horfðu út um allt. Dálítið móðgaður yfir að hafa þurft að yfirgefa kósíheitin innan í mér en eftir að hafa dvalið svolitla stund í fanginu á mömmu sinni virtist hann sætta sig við lífið og hefur síðan þá verið ansi spar á grátinn. Jafnvel fullspar á hann því hann er svo afskaplega sætur þegar hann grætur. En ég ætla þó alls ekki að kvarta yfir því. Drengurinn er mikið ljúfmenni, skammtar foreldrum sínum ríflegan svefntíma á nóttunni, skemmtir gestum og gangandi með óteljandi svipbrigðum og krúttlegheitum þegar hann er vakandi, viðheldur mjólkurframleiðslu móðurinnar glæsilega með því að drekka og drekka (enda er hann orðinn yfir meðallagi í þyngd núna, en var algjör písl þegar hann fæddist), og skilar afurðunum smekklega af sér í nokkrar bleyjur á dag (hef heyrt sögur um börn sem kúka bara á tyllidögum). Auðvitað á hann sínar slæmu stundir eins og allir og kvartar þegar hann er ekki sáttur við eitthvað en svona yfirhöfuð þá gætu þessir foreldrar ekki verið heppnari með barn. Hann er líka með eindæmum vinsæll og vel liðinn af stórfjölskyldunni.
Jæja, ég ætla að láta þetta nægja í bili, meira síðar.
Ég hef ákveðið að endurvekja þetta blogg í tilefni af nýju hlutverki mínu í lífinu sem móðir. Síðan verður því héðan í frá að meira eða minna leyti tileinkuð sigrum mínum og ósigrum í þessu nýja hlutverki, sem og montsögum af litla, fullkomna afkvæmi mínu. Ef til vill slæði ég nokkrum myndum með ef ég man ennþá hvernig það er gert á þessum blogger. Ég hef jafnframt ákveðið að segja engum frá þessari nýju virkni á síðunni, ef til vill er einhver sem ennþá bíður spenntur eftir færslu og hefur reglulega kíkt hér inn síðan 13. nóvember 2008. Heppinn hann! Ef til vill velta menn fyrir sér hvers vegna ég sé þá að þessu...eða reyndar kannski ekki margir þar sem afar fáir munu lesa þetta. Ástæðan er sú að ég hef hugsað mér að nota þetta sem heimild um uppvöxt afkvæmis míns sem hægt verður að leita í þegar króginn er jafnvel orðinn fullorðinn. Nema að internetið verði horfið þá. Í gamla daga voru svona bækur sem mæður skrifuðu allskonar í um börnin sín, t.d. fyrsta brosið og tönnin og svoleiðis, og á ég eina slíka frá mínum uppvexti. Í dag hafa svokallaðar barnalandssíður tekið við þessu hlutverki. En þar sem mér finnst slíkar síður asnalegar og nenni ekki út í búð að kaupa svona bók þá ætla ég að gera þetta svona allavega fyrst um sinn. Þá er kannski við hæfi að byrja á að nefna að í morgun, 4 vikna og tveggja daga gamall, brosti litli grísinn og hló beint til mín alveg nokkrum sinnum. Hann er búinn að vera að gera þetta af og til síðustu daga en hefur aldrei beint því að mér, móður sinni og helstu næringaruppsprettu, og verð ég að játa að ég var orðin dálítið sár. En í morgun kom brossprengja bein til mín og varð ég afar hamingjusöm og reif upp myndavélina. Eftir nokkrar tilraunir náði ég þessari mynd:
Jæja, ég ætla að láta þetta nægja í bili. Á næstu dögum mun ég kannski líta yfir farinn veg þessar 4 vikur sem snáðinn hefur verið á lífi (þ.e.a.s. utan míns líkama).
Mig dreymdi draum í nótt sem svipaði mjög til annars draums sem mig dreymdi fyrir nokkru síðan. Í nótt var ég semsagt í París í annað skipti (ég er líka mjög oft í New York þegar ég er sofandi). Þetta var samt ekki mjög líkt þeirri París sem ég fór til þegar ég heimsótti Magneu fyrir ári síðan. Það var samt fullt af gömlum húsum og merkilegum kirkjum með hvolfþökum. Ég og Rikke og Egill og Hrafn vorum að hjóla á hraða vindsins til að komast á eitt torg. Það var sama torg og við vorum stödd á í hinum Parísardraumnum mínum. Nóttina áður í þeim draumi fórum við á villt djamm á djammgötu í París og sáum m.a. Christinu Aguilera ásamt kærustu sinni. Daginn eftir fórum við á torgið en þar var eitt tívolítæki. Það var langur stigi (svona reipstigi eins og er í trjáhúsum) sem sveif um í lausu lofti og fór alltaf hærra og hærra. Við ákváðum að fara í tækið, það var ekkert sem hélt manni í stiganum, maður varð bara að sitja og halda sér rosalega fast. Það var geðveikt gaman og þegar við komum loksins niður aftur fengu allir skot. Fullorðnir fengu stór skotglös en börnin pínulítil skotglös. Næst þegar tívolítækið fór af stað varð óhapp og ein kona í bláum kjól datt úr tækinu á meðan það var lengst, lengst uppi á himni. Svo langt að maður sá bara strik. Hún dó en svo breyttist hún í stelpu sem var lifandi en svo dó hún aftur. Svo heppilega vildi til að það var kirkja á torginu og þangað fóru allir til að syrgja.
Í nótt gerðist ekkert svona dramatískt í París, við vorum bara að hjóla og hanga á torginu.
Jæja, í kvöld eru tónleikar á Dillon með ofurhljómsveitinni Nóru. Við munum bjóða upp á jarðafjör og sifjasprell svo vinsamlegast mætið.
Egill var að segja mér að blogga. Ég mótmælti vegna þess að ég hef ekkert áhugavert að segja. Það er nefnilega af sem áður var þegar ég var ung og óhrædd við að tjá mig um hin og þessi málefni af miklum eldmóði. Núna er ég blessunarlega laus við flest allar skoðanir á hlutum og flýt í gegnum lífið hangandi í blárri blöðru. Þar sem ég lifi mun skemmtilegra lífi þegar ég er sofandi hef ég ákveðið að blogga um draumfarir mínar. Mig dreymir þúsund drauma á hverri nóttu. Í nótt gerðist þetta:
Ég og Egill og Rikke danska kærastan hans fórum á bensínstöð til að smyrja bílinn hans Egils. N1 við Ægissíðuna varð fyrir valinu. Á meðan Egill fór inná bensínstöðina og kom til baka með tvær mjög stórar fötum af smurningu leiddist mér og Rikke svo við fórum að sópa planið af mikilli eljusemi með kústum sem við fundum fyrir utan. Þegar ég var orðin þreytt tók ég mér pásu til að kaupa mér fílakaramellu inni á bensínstöðinni. Þar var sköllóttur maður sem þekkti mig í sjón af því ég var alltaf að koma og kaupa fílakaramellur. Hann bauð mér vinnu sem ég þáði með þökkum. Svo fór ég út og hélt áfram að sópa planið. Þá var ég komin með tvo hauga, einn sandhaug og einn haug af heyi. Þá bar föður minn að. Þar sem hann var með holu í hausnum ákvað ég að troða heyinu öllu í hausinn á honum og þá leit út fyrir að hann væri með rosalega mikið og fallegt hár. Hann var afskaplega ánægður með það og ætlaði bara að fara heim en ég fékk bakþanka og sagði pabba að þetta væri kannski ekki mjög sniðugt, heyið myndi mygla í hausnum á honum og á myndi verða rosalega vond lykt af honum. Hann ætlaði að hugsa málið. Jæja, að öllu þessu loknu fór ég heim í nýju íbúðina sem var með tveimur eldhúsum og tók fram döðlukökuna sem ég bakaði fyrr um daginn og bauð systkinum mínum sneið.
Stuttu síðar vaknaði ég við útvarpið þar sem verið var að segja frá atburðum liðinnar nætur í óveðrinu. Ég ákvað að það væri ekkert sniðugt að vakna núna svo ég fór aftur að sofa og missti af tíma. En það er allt í lagi.