Hérna er ferðablogg sem við bekkurinn verðum með, svona læv öppdeit frá Svíþjóð. Veit samt ekki alveg hvar ætlunin er að komast í tölvur.....kannski í skólanum þeirra en við verðum nú ekkert svo mikið þar.
Í gær hef ég sjaldan verið jafn nálægt barmi taugaáfalls. Í grófum dráttum var staðan svona:
Það var mánudagur og ég hafði verið í skólanum til kl. hálf fimm að reyna að klára berggreiningu í jarðfræði. Endasprettur skólablaðsvinnslu var (og er enn) í hámarki. Næstu tveir dagar buðu upp á skóla til hálf fimm ásamt stærðfræðiprófi á miðvikudag. Síðast en ekki blasti Svíþjóðarferðin við kl. 5 á fimmtudagsmorguninn. Allur undirbúningur fyrir hana var (og er enn) varla á byrjunarstigi. (Sá undirbúningur felur t.d. í sér jarðhita- og kjarnorkuhópverkefni, pökkun og trygginga og peningamál) Sem sagt: allt eftir.
Þegar ég var í miðjum klíðum að kafna úr áhyggjum yfir þessu öllu saman áttaði ég mig á því að í dag, þriðjudag, átti ég að flytja fyrirlestur í myndmennt um Edouard Manet og listastefnu hans og einhvern íslenskan málara hvers nafni ég var gjörsamlega búin að gleyma. Frekar vonlaus staða.
Í dag hinsvegar er staðan allt önnur.
Í fyrsta lagi var jarðfræðikennarinn veikur svo að ég kom heim kl. þrjú í staðinn fyrir hálf fimm. Sem sagt: aðeins meiri tími fyrir stærðfræðiprófsfyrirlær.
Í öðru lagi var myndmenntakennarinn veikur í dag svo að ég þurfti ekki að halda afsökunar/miskunnarbeiðniræðuna sem ég var búin að undirbúa í huganum þegar ég lá andvaka uppi í rúmi í gær. Svo fékk ég að vita að hann verður áfram veikur á morgun svo að ég er búin í skólanum kl. eitt í staðinn fyrir kl. hálf fimm og hef allan daginn til að undirbúa þessa blessuðu Svíþjóðarferð, pakka og svona, leggja lokahönd á jarðfræðiverkefnið og ritnefndast smá.
Það ætti engan að undra gleðitilfinninguna sem hríslaðist um mig þegar ég frétti af veikindum þessara aumingja kennara. Þrátt fyrir djúpa samúð mína í garð þeirra verður ekki litið hjá þeirri staðreynd að ef þeir væru heilir heilsu þá er ekki víst að ég sæti hér í mestu makindum og bloggaði. Mér þykir ekki ólíklegt að ég væri stödd á geðdeild Landspítalans.
Boðskapur þessa pósts er sem sagt: Eins dauði er annars brauð. Þannig er það bara og svo sem ekkert hægt að setja út á það.....