Úff....fyrsti sumarvinnudagurinn er á morgun. Æ dónt belív itt. Hér er allt í upplausn af því að það er ekki til neitt tannkrem og mamma og pabbi eru ekki heima og það getur enginn farið að sofa. Reyndar er það bara ég sem á við þennan vanda að stríða, systkinum mínum virðst ekki vera jafn annt um tannheilsu sína.
Ætli ég verði ekki bara að bíða þar til móðir og pápi koma heim...
Nú fara í hönd átta vikur af vinnu og íslensku sumri, fjórar af eilítið spænskara sumri og svo rúmlega ein af hinu íslenska aftur. Hljómar ágætlega.
Jæja, ég ætla að athuga hvort ég geti ekki kreist svo ekki sé nema ofur lítið úr tannkremstúpunni.
Tvímælalaust meðal bestu daga ársins.....jú, dagurinn sem vorprófunum lýkur og sumarfríið gamla góða tekur við. Sá dagur er einmitt í dag. Og hann er ekki búinn! Sjibbýýýý!
Eftir sæmilegt þýskupróf í morgun gekk ég sallaróleg (jafnvel of róleg?) út í sólina og frelsið. Aaaahhhh.....svo fór ég á lokaSvíþjóðarfundinn ásamt bekknum mínum og fékk köku, snakk og trópí tríó. Svo spókaði ég mig í smá stund um ganga Kvennó og á bókasafni Kvennó í síðasta skiptið (sem nemandi allavega, ekki skilja mig sem svo að ég ætli að verða kennari þarna en kannski kíki ég í heimsókn). Því næst lá leiðin út í bílinn hennar Signýjar ásamt Steinvöru og við nutum þess til hins ýtrasta að hafa ekkert planað og engum skyldum að gegna og tókum þá skyndiákvörðun eftir smá rúnt að keyra upp í perlu og fá okkur kúluís. Hann var góður og það var gaman:) Svo nutum við þess smá meira og keyrðum um Öskjuhlíðina en svo upp að Hallgrímskirkju þar sem við hittum Helgu og ég rölti ásamt henni niður í bæ að leita mér að flíkum. Það gekk ekki sem skyldi en það var samt sem áður gaman því það er komið sumarfrí. Ég hef allan tímann í heiminum til að leita mér að flíkum:) Eftir bæjarferðina, Devitos og svolítið langan bíltúr um Reykjavíkurborg með nokkra útilegumenn brugðum við okkur í langþráð sund, spókuðum okkur í sólinni og hlustuðum á misskemmtilegar heitapottsumræður. Þegar heim kom beið mín lambalærissneið með öllu tilheyrandi.
Kvöldið er óráðið. Kannski að ég verði bara heima í sæluvímu minni og fái mér ef til vill nammi og horfi smá á sjónvarpið.
Jæja, ég vona að þið hafið haft jafn gaman af að lesa þess útlistingu mína á þessum frábæra degi og ég hafði af að skrifa hana. Ég efast samt um það en það er allt í lagi því það er komið sumarfrí.
Næstu dagar bjóða upp á jafn mikið glens og gaman, ef ekki meira: júróvisjónhittingur, lokaball, grillafmælisveisla, fataversl og aftur júróvisjón(sem er samt ekkert gaman nema Ísland komist upp úr undankeppninni) og svo Grasagarðurinn gamli góði.
Ég votta virðingu mína þeim sem eru ennþá í prófum og sendi þeim baráttukveðjur. Þið eigið sko gott í vændum ef mér skjátlast eigi!
Lag dagsins: Sunshine, lollipops and rainbows - Lesley Gore