Ég gaf mörg fögur loforð í gærkvöldi. Eitt af þeim var að setja einhverjar af þeim fjölmörgu myndum sem ég hef verið iðin við að taka síðustu mánuði inn á netið ykkur til ánægju. Þetta loforð mun ég allavega ekki svíkja, veit ekki með hin... Ég er semsagt byrjuð að hlaða myndum inn á yahoo en eins og margur veit þá tekur það endalausan tíma svo þið megið gera ráð fyrir því að geta skoðað þær á einhverntímann á morgun =D
Á meðan tölvan athafnar sig ætla ég að halda áfram að læra undir heimspekipróf og reyna að ákveða hvort guð sé til eður ei. Svo þarf ég að skrifa pistil um frægar halastjörnur fyrir úber svala plaggatið sem ég er að gera í stjörnufræði. Ég verð eiginlega að klára það svo hópfélagi minn haldi ekki að mér sé ekki alvara með að gera flottasta plaggat í sögu Borgarholtsskóla. Það verður sko með glimmeri á.
Nú standa málin reyndar þannig að klukkan er korter yfir ellefu og ég fékk svona u.þ.b. þriggja tíma svefn í morgunsárið. Langur mánudagur á morgun...svo stuttur þriðjudagur og svo skóhlífadagar sem eru svona þemadagar og svooo....vetrarfrí nr. 2, lööööng helgi sem verður tekin í fullkomið afslappelsi =D
Mig langar svo að hafa lag dagsins. Það er lagið The Legionnaire's Lament með The Decemberists :)
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, jújú, sumarið nálgast óðfluga. Hafið það gott.
P.s. dyraverðir eru fólk sem hefur átt undir högg að sækja í lífinu, hefur jafnvel aldrei átt vini og lifað mjög innihaldslausu lífi, og hefur ákveðið að gerast dyraverðir til að finnast það vera mikilvægar manneskjur því það hefur einhver afbrigðileg völd yfir fólki og vílar ekki fyrir sér að henda litlum stelpum niður brattan stiga.
Nohh...miðvikudagur bara að kveldi kominn. Svo kemur fimmtudagur og svo enginn annar en föstudagur!
Í dag endurnýjaði ég kynni mín við barnið í mér sem þó er aldrei langt undan. Ég fór í einakrónu og krókódíll krókódíll og svo hlustaði ég á heitasta slúðrið úr fjórða bekk í Rimaskóla og blandaði mér í mjög vitsmunalegar samræður um það. Svo gerði ég fasta fléttu í barbí-bratzdúkku.
Það er mjög fyndið en jafnframt pínulítið afbrigðilegt að hlusta á níu ára pæjur syngja Silvíu lagið allt í gegn með öllu tilheyrandi...
Eftir þetta hélt ég heim á leið en svo skundaði ég á fund ömmu og afa og hitti þar tvær aðeins yngri pæjur sem heita Hrafnhildur Sif og Sara Lilja og eru bestar í öllum heiminum. Þetta blogg er því tileinkað þeim.
Ég ætla að varpa fram einni spurningu í lokin til ykkar lesendur góðir: Nú er toppurinn minn farinn að vaxa fram úr hófi og bráðum mun ég ekki sjá neitt. Á ég að klippa hann eins og hann var eða láta hann vaxa?