Félagsfræðibókin mín er afskaplega leiðinleg bók. Jafnvel ein sú leiðinlegasta sem ég hef á ævi minni lesið. Ástæða þess er hugsanlega sú staðreynd að hún gæti verið a.m.k. helmingi styttri ef höfundurinn hefði takmarkað notkun orðsins ,,tiltekinn”, sem er u.þ.b. annað hvert orð og eitt merkingarlausasta orð sem ég veit um, við eitt slíkt á blaðsíðu. Hver er til dæmis munurinn á því að segja ,,maður fór út í búð” og ,,tiltekinn maður fór út í búð”? Einnig hefði hjálpað ef höfundur hefði einskorðað sig við setningar sem eru færri en 10 línur að lengd en fela engu að síður í sér svipað fræðslugildi.
Þar að auki eru svona 23 innsláttarvillur á blaðsíðu.
Ekki bætir úr skák að þetta er tilraunaútgáfa sem gerir það að verkum að ég mun líklega ekki geta selt hana þegar ég er búin að nota hana. Og þó, þá get ég bara notið þess að brenna hana eftir prófið á morgun.