Það er komið sumar...eða allavega vor. Ég nefnilega heyrði í hrossagauki í morgun þegar ég var að labba í sveitinni, þ.e. Grafarvoginu, til að fá íþróttamætingar. Það var mikil gleðistund í mínu hjarta. Stuttu seinna heyrði ég í lóu. Persónulega finnst mér þó hrosagaukshljóðið flottara en það er svo töff, það kemur úr stélinu. Það minnir mig svo mikið á sumarið og sveitina og tjaldferðir og fjallgöngur og gras og sól. Og lítil, bleik blóm. Og krækiberjalyng.
Ég labbaði líka í Elliðaárdalnum í dag, líka til að fá íþróttamætingar. Til samans labbaði ég því um 17 kílómetra í þeim tilgangi. Dagurinn einkenndist því mikið af labbi en að því loknu fór ég í sund og soðnaði í heita pottinum í næstum klukkutíma. Það var afskaplega endurnærandi.
Jahá...svo hef ég þau tíðindi að færa ykkur að í dag lauk ég fyrir (næstum) fullt og allt skólagöngu minni í Borgarholtsskóla. Það vekur blendnar tilfinningar, maður á nú eftir að sakna hins og þessa og hinna og þessara. Samt...tímamót eru alltaf skemmtileg og flestar breytingar af hinu góða. Það finnst mér.
Ég get ekki ákveðið hvað það er sem ég hlakka mest til í sumar. Það er gott en flókið vandamál sem ég ætla að einbeita mér að því að leysa næstu daga.
En fyrst...fyrst ætla ég að fara að sofa og sofa alveg þangað til að ég vakna.