VÁ! Ég fann bloggið mitt! Það var ekki lítið mál skal ég segja ykkur. Ég var bara aðeins búin að týna því. En nú skal hefja bloggun að nýju af fullum krafti. Ég vil ekki eiga á hættu að gleyma lífi mínu fyrir aldur fram. Og ég er ófær um að halda áþreifanlega dagbók því ég týni þeim alltaf. Svo blogg skal það vera. Það er líka svo gott að fá útrás fyrir sjálfhverfni á miðjum veraldarvefnum.
Ég verð ef til vill smá stund að komast aftur í gírinn. En nú fyrir stuttu hófst nýtt tímabil í lífi mínu sem nefnist Að hanga á kaffihúsi tímabilið. Ég veit ekki hversu lengi það mun standa. Kaffihús eru prýðilegur vettvangur til að stunda bloggun. Þar get ég gert misheppnaðar tilraunir til að vera djúpt þenkjandi og málefnanleg. Núna er ég stödd á Hressó.
Jæja, þetta er ágætt. Í bili. Ég er ekki alveg kominn í gírinn. En það kemur að því.