Í kvöld datt ég aðeins í það að lesa mér til um ungabörn og uppeldi á netinu (þegar ég var ólétt gerðist þetta líka, nema þá í sambandi við meðgöngu og fæðingu). Það getur verið varhugavert þar sem þar er þvílíkt offramboð af upplýsingum og stundum erfitt að fatta hvað er tómt kjaftæði og hvað ekki. En fyrir nýbakaða, unga móður er hægara sagt en gert að stoppa þegar víðlendur internetsins hafa náð taki. Og eftir svona upplýsingafyllerí er hætt við að heilinn ofhitni og allt í einu kemst hann að þeirri niðurstöðu að ég sé hræðileg móðir...af því ég hef ekki farið 100% eftir ÖLLUM ráðunum sem ég las á netinu. En þá þarf ég nú yfirleitt bara aðeins að kæla mig niður og þá man ég að það mikilvægasta af öllu er að fylgja eigin innsæi. Konur og menn ólu nefnilega upp börn löngu áður en öld hins yfirdrifna upplýsingaflæðis gekk í garð.
Ég hlakka samt til þegar Þorri fer að tala og getur bara sagt mér hvað er að og hætt í þessum endalausa "gettu hvað er að mér núna!" leik.
Ég á hins vegar örugglega á ákveðnum augnablikum í framtíðinni eftir að sakna þess tíma sem hann var rúmur hálfur meter að lengd og var ekki búinn að fatta að dótið sem var alltaf að sveiflast í kringum hann væru hans eigin hendur.
Það er svo fyndið þegar hann er að sveifla höndunum svona ómeðvitað í kringum sig, svo allt í einu hittir hann upp í sig, telur sig vera búinn að næla sér í geirvörtu og fer að totta, geðveikt sáttur við lífið. Gaman ef að svona hlutir myndu kæta mann jafn mikið á fullorðinsaldri. Og þó, þá væri líklega um einhvern misþroska að ræða.
Eitt af því sem ég las þarna í ölæðinu áðan var að ungabörn sjá fyrst bara í svart-hvítu (vissi það reyndar) en svo fara að bætast við litir, fyrst gulur. Það kemur heim og saman hér á bæ því fyrst var uppáhalds dótið hans svarthvíta pandan sem hann gat spjallað við mínútunum saman (sambærilegt við "klukkutímunum saman" hjá okkur fullorðnum). Núna er uppáhalds dótið hins vegar apahringla sem er einmitt gul, og sólin, sem er aldeilis gul, á hengislánni hans. Athyglisvert!
Hér koma tvær myndir, því það er skemmtilegra að lesa blogg sem eru með mynd. Þessi er af Þorra í léttu spjalli við fyrrnefnda pöndu:
Þessi er af Þorra að segja sjálfum sér geggjað fyndinn brandara í speglinum:
Jæja, pilturinn vex með ÓGNARhraða. Enda hef ég lagt mikinn metnað í hlutverk mitt sem mjólkurbú. Nú telst hann ekki lengur til nýfæddra barna heldur er hann óbreytt ungabarn. Smátt og smátt eru því skapgerðareinkenni og annað slíkt að að koma í ljós, þó svo að hann hafi raunar verið maður mikilla svipbrigða allt frá fæðingu. Þá helst í svefni, þekktastur var Zoolander svipurinn en ég held að öll þessi svipbrigði snáðans hafi verið mun tengdari meltingarstarfsemi hans en fólk var fúst til að viðurkenna. Nú eru hinsvegar að koma fram meðvitaðri svipbrigði, t.d. hið undurfagra bros hans sem hann útdeilir af miklu örlæti þegar hann er í stuði. Mjög auðvelt er að töfra fram eitt slíkt með því að blístra fyrir hann, það þykir honum stórkostlega skemmtilegt. Einnig er móðir hans (ég) ekki frá því að hann sé nú þegar búinn að fatta að prump sé fyndið því í dag hló hann tvisvar eftir að hafa bombað af krafti (merkilegt hvað svona lítill afturendi getur framkallað mikinn hávaða), en það gæti þó hafa verið tilviljun... Auk þess er næstum alltaf hægt að hugga hann ef hann er óhress með því að skella honum á skiptiborðið. Fyrir ofan það hanga nefnilega fötin hans og á veggnum er mynd sem ég málaði þegar ég var 10 ára sem virðist grípa augu hans (enda var ég stórkostlegur listamaður sem barn). Hann er mjög athugull og forvitinn, veitir öllu fólki mikla athylgi og fylgir því vel eftir með augunum. Stundum finnst mér eins og hann sjái meira en við hin þegar hann dettur í innilegt spjall við eitthvað sem virðist bara vera hvítur veggur. Jafnframt eru hljóðin sem hann gefur frá sér búin að þróast, hann er auðvitað farinn að hjala heilmikið og svo er orðið auðveldara að greina á milli óánægjuhljóðanna. Af og til kemur frá honum stutt og laggott hátíðnihljóð sem tjáir svo skýrt og greinilega þvílíka vanþóknun að hann gæti alveg eins verið að segja: "Hvað er að þér maður?!?"
Um daginn fór hann í rosalega fýlu út í móður sína sem er alltaf að reyna að æfa hann í að liggja á maganum en það þykir honum afskaplega leiðinlegt (oftast, nema þegar hann er í stuði). Hann grét bara og grét (ekki einu sinni skiptiborðið virkaði) og hætti ekki fyrr en pabbi hans kom heim úr búðinni og bjargaði honum. Svo varð hann fljótlega svangur og neyddist til að fyrirgefa mér. Múhahaha...
Nú er að hlýna og það þykir mér afskaplega gaman. Þá getur fæðingarorlofið mitt farið að eiga sér stað utan heimilisins og lít ég mjög hýru auga til sumarsins, það skal sko bæta upp fyrir gubb-sumarið mikla sem leið.